Forsíða /
Fréttir /
Að bera virðingu fyrir eignum viðskiptavina

Að bera virðingu fyrir eignum viðskiptavina

Fimmtudagur 21. nóvember 2024

Peningar skipta talsverðu máli í samfélagi okkar, enda eru flestir háðir reglulegri innkomu þeirra og hver einasti dagur hefur sinn verðmiða.  Umhverfið hvetur okkur til að reyna að mynda sparnað og sumum hefur auðnast að eignast umtalsverða fjármuni sem þarf að ávaxta og vernda.  Rétt meðhöndlun fjármunanna getur breytt lífi fólks til góðs og tryggt áhyggjulaust ævikvöld en röng meðhöndlun getur framkallað vanlíðan og áhyggjur.  Í sumum tilfellum fara talsverðir fjármunir á milli kynslóða í gegnum erfðir og finnur fólk því til ábyrgðar þegar kemur að meðhöndlun þeirra.  Afdrif fjármuna geta þannig verið einn af mikilvægustu þáttum í lífi fólks og haft mikil áhrif á velsæld og hamingju. 

Fjármagnseigendur leita gjarnan aðstoðar fjármálaráðgjafa og leggja traust á að ráðgjafinn veiti góða og ígrundaða ráðgjöf við hæfi.  Þegar fólk leitar til fjármálaráðgjafa þá ætti það að vera krafa af þeirra hálfu að þeim mæti ekki bara reynsla, þekking og vönduð vinnubrögð, heldur líka virðing og skilningur, því fjármunirnir eru oft eitt það allra mikilvægasta í lífi fólks.  Það er ekki tilviljun að regluverk og eftirlit með fjármálaráðgjöf sé mikið og að miklar kröfur séu gerðar til fjármálaráðgjafans, því málið snýst um mikil verðmæti og jafnvel um aleigu fólks.

Til að geta veitt góða ráðgjöf þarf fjármálaráðgjafinn að setja sig inn í persónulegar aðstæður umbjóðenda sinna.  Þættir eins og aldur, fjölskylduaðstæður, áhugamál og viðhorf fjármagnseigandans til áhættu hafa mikil áhrif á það hvað hentar hverjum og einum.  Fjármálaráðgjafinn þarf auk þess að geta útskýrt fyrir umbjóðendum sínum ávöxtunarmöguleikana á skýran og skilmerkilegan hátt og leiðbeint við val á því sem hentar best í hverju tilfelli.

Ef ráðgjöfin og valið á ávöxtunarleið er óvandað kemur það oft ekki í ljós fyrr en að mörgum mánuðum eða árum liðnum.   Skaðinn er þá skeður og getur hann verið talsvert mikill fyrir fjármagnseigandann.  Skaðinn vegna illa ígrundaðrar ráðgjafar mælist ekki endilega og eingöngu í fjárhagslegu tapi fjármagnseigandans heldur einnig í vanlíðan og óvissu.  Rangt mat á áhættuþoli vegna ófullnægjandi greiningar á aðstæðum er dæmi um ástæðu þess að röng ávöxtunarleið er valin í upphafi.  Ef tekin er of mikil áhætta þá geta sveiflur á virði fjármunanna orðið meiri en fólk átti von á og ef of lítil áhætta er tekin þá getur ávöxtunin til langs tíma orðið minni en væntingar voru um.  Hvort tveggja getur valdið vonbrigðum og brostnum væntingum fjármagnseigandans.

Einkabankaþjónusta er fjármálaþjónusta sem er fyrir fólk sem er með talsvert mikla fjármuni sem þarfnast ávöxtunar, líkt og hér hefur verið rætt um.  Þjónustan er persónuleg og lögð er rík áhersla á að veita viðskiptavinum faglega ráðgjöf.  Þjónustan er sérsniðin að þörfum hvers og eins og felst í ígrundaðri greiningu á aðstæðum í upphafi og svo eignastýringu og upplýsingagjöf á meðan á viðskiptasambandinu stendur.  Mikilvægt er að viðskiptavinurinn finni að fjármunirnir séu í öruggum og traustum höndum og að þróunin sé í samræmi við væntingar sem lagt var upp með í upphafi. 

Hið eiginlega markmið einkabankaþjónustunnar er að tilvera fjármunanna og ávöxtun þeirra hjálpi til við að auka ánægju og lífsgæði eiganda fjármunanna.  Það ætti að vera krafa viðskiptavinarins að einkabankaþjónustan meðhöndli fjármunina eins og um eitt það allra verðmætasta í lífi viðskiptavinarins sé að ræða.

 Björn Knútsson, viðskiptastjóri hjá Kviku eignastýringu hf.