Forsíða /
Fréttir /
Kvika eignastýring ræður þrjá nýja starfsmenn

Kvika eignastýring ræður þrjá nýja starfsmenn

Þriðjudagur 14. janúar 2025

Kvika eignastýring hefur ráðið þrjá nýja starfsmenn. Kolbeinn Þór Bragason hefur verið ráðinn sem viðskiptastjóri í einkabankaþjónustu, Örvar Snær Óskarsson hefur verið ráðinn sem sjóðstjóri blandaðra sjóða og Arnar Bogi Jónsson sem sérfræðingur í deild áhættustýringar, fjármála og rekstrar. Þeir hafa allir hafið störf.  Auk þess hefur Vaka Jóhannesdóttir sem áður gegndi starfi forstöðumanns fjármála og rekstrar verið ráðin sem sjóðstjóri blandaðra sjóða og Sigurður Pétur Magnússon, áhættustjóri félagsins, tekið við nýju starfi sem forstöðumaður nýrrar deildar áhættustýringar, fjármála og rekstrar.

Kolbeinn Þór starfaði áður sem forstöðumaður einkabankaþjónustu Arion banka. Hann hafði starfað hjá Arion banka og áður Kaupþingi allt frá árinu 2000. Kolbeinn er með Cand. oecon próf í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Örvar Snær hóf störf að nýju hjá Kviku eignastýringu árið 2024 en starfaði þar einnig á árunum 2015 til 2023, að mestu sem sjóðstjóri skuldabréfa- og blandaðra sjóða. Örvar starfaði sem verðbréfamiðlari hjá Íslandsbanka árið 2024. Örvar er með B.Sc. gráðu í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík, M.Sc. gráðu í fjármálastærðfræði frá Queen Mary University of London og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Arnar Bogi starfaði áður sem verkefnastjóri hjá Kviku banka en hann hóf störf hjá bankanum 2022. Arnar er með M.Sc í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og lýkur mastersnámi í fjármálum fyrirtækja frá sama skóla í vetur.