Hilmar Bragi Janusson, framkvæmdastjóri Iðunnar
Á hluthafafundi Iðunnar framtakssjóðs slhf. þann 5. maí sl. var ný stjórn kjörin. Stjórnin er skipuð fimm einstaklingum sem saman hafa yfirgripsmikla reynslu af stjórnarsetum í fyrirtækjum og stofnunum. Stjórnina skipa nú Adrienne Rivlin, Guðjón G. Kárason, Kristín Ingólfsdóttir, Margit Robertet, stjórnarformaður, og Þorsteinn Víglundsson.
Iðunn er framtakssjóður í rekstri Kviku eignastýringar sem leggur áherslu á fjárfestingar á sviði lífvísinda og heilsutækni (e. life science and health technology). Fyrirtæki sem falla þar undir starfa meðal annars við framleiðslu lækninga- og greiningatækja, lyfjaþróun, stafræna læknisþjónustu, heilbrigðisþjónustu auk stuðningsfyrirtækja í virðiskeðju eða þróun lífvísinda og heilbrigðistækni. Einn af lykilþáttum í fjárfestingarstefnu sjóðsins eru áherslur á stjórnunargetu þeirra fyrirtækja sem fjárfest er í. Sjóðurinn er 6,7 milljarðar króna að stærð og fjárfestingartímabil hans er 5 ár. Hilmar Bragi Janusson er framkvæmdastjóri sjóðsins.
Nánar um stjórnarmenn Iðunnar framtakssjóðs slhf.:
- Adrienne Rivlin hefur starfað í fjölda ára sem sérfræðingur og ráðgjafi á sviði lífvísinda og heilbrigiðsmála m.a. hjá KPMG í London og nú LEK Consulting. Hún hefur aðstoðað fyrirtæki við stefnumótun, greiningu fyrir markaðssetningu og verðlagningu á lyfjum og lækningatækjum. Adrienne er með doktorspróf í geðlækningum frá Oxford háskóla.
- Guðjón G. Kárason starfar sem framkvæmdastjóri klíníkar (e. clinics) hjá Össuri hf. Guðjón hefur starfað hjá Össuri frá árinu 1998 og unnið við vöruhönnun og þróun ásamt sölu- og markaðssetningu á vörum. Hann hefur víðtæka og alþjóðlega reynslu af kaupum og sameiningum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu ásamt því að hafa komið að fjölmörgum umbótaverkefnum innan fyrirtækja.
- Kristín Ingólfsdóttir er prófessor í lyfjafræði og fyrrum rektor Háskóla Íslands. Hún gegndi stöðu rektors í 10 ár en hafði áður starfað sem prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Að loknu starfi rektors var Kristín gestaprófessor við Massachusetts Institution of Technology (MIT) í Boston. Kristín er formaður ráðgjafanefndar Landspítalans og situr einnig í alþjóðlegri vísindanefnd við Háskólann í Grenoble í Frakklandi.
- Margit Robertet er forstöðumaður framtakssjóðasviðs Kviku eignastýringar. Margit hefur reynslu af fjármálamörkuðum á Íslandi og í Evrópu þar sem hún starfaði framan af í fyrirtækjaráðgjöf, hjá Barclays í London og síðar Credit Suisse í París. Margit var framkvæmdastjóri lánasviðs Straums Burðaráss áður en hún tók þátt í stofnun Auðar Capital og kom að stofnun Auðar I slf., elsta starfandi framtakssjóðs á Íslandi. Margit situr í stjórn Íslandshótela, Securitas og Matorku og er formaður stjórnar IcelandSIF.
- Þorsteinn Víglundsson er forstjóri Hornsteins en félagið rekur BM Vallá, Björgun og Sementsverksmiðjuna. Þorsteinn er fyrrum félags- og jafnréttismálaráðherra og þingmaður fyrir Viðreisn ásamt því að hafa gegnt starfi framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Hann starfaði áður sem forstjóri BM Vallár frá 2002 til 2010.
„Iðunn er mikilvæg viðbót í þróun fjármálamarkaða á Íslandi og nauðsynlegt að slíkur sjóður geti tekið þátt í verðmætasköpun úr hugviti og þekkingu sem líkleg er til að standa undir lífsgæðum framtíðarinnar.“ segir Hilmar Bragi Janusson, framkvæmdastjóri sjóðsins.