Kvika eignastýring leggur áherslu á langtímahugsun og jákvæð langtímaáhrif á samfélagið. Félagið trúir því að sjálfbær rekstur fyrirtækja og sjóða sé líklegri til að viðhalda góðri rekstrarafkomu til framtíðar.
Undanfarið hefur verið mikil vitundarvakning á meðal fyrirtækja og stofnana um samfélagslega ábyrgð. Samkeppnishæfi fyrirtækja veltur í auknum mæli á því hversu sjálfbær og samfélagslega ábyrg þau eru. Með ábyrgum fjárfestingum er átt við að tekið sé mið af umhverfislegum þáttum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS, e. ESG) við fjárfestingarákvarðanir með það að markmiði að draga úr áhættu og skila sjálfbærri ávöxtun til langs tíma.
Kvika eignastýring hefur markað sér stefnu um ábyrgar fjárfestingar með hliðsjón af meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (e. UN PRI) sem gerir félaginu kleift að samþætta samfélagsábyrgð við núverandi verkferla þegar fjárfestingarákvarðanir eru teknar.
Kvika eignastýring hf. tekur virkan þátt í samstarfi á sviði samfélagsábyrgðar.
IcelandSIF
Kvika eignastýring hf. er stofnaðili að IcelandSIF auk þess situr fulltrúi félagsins í stjórn samtakanna. Tilgangur samtakanna er að efla þekkingu íslenskra fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga. Samtökunum er ætlað að vera óháður vettvangur fyrir umræðu og fræðslu um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar.
PRI
Kvika banki hf. undirritaði meginreglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar fyrir hönd samstæðunnar í júlí 2020. PRI (e. Principles for Responsible Investment) eru alþjóðleg samtök fjárfesta sem vinna að því að innleiða grundvallarviðmið um ábyrgar fjárfestingar. Með því að skrifa undir meginreglur PRI um samfélagslega ábyrgð lýsa fjárfestar því yfir að saman fari langtímahagsmunir þeirra sem fjárfesta og samfélagsins í heild.