Forsíða /
Framtakssjóðir /
Fréttir /
Vari eignarhaldsfélag undirritar kaupsamning á 40% hlut í Securitas hf.

Vari eignarhaldsfélag undirritar kaupsamning á 40% hlut í Securitas hf.

Þriðjudagur 21. maí 2024

Framtakssjóðurinn Edda og Vari eignarhaldsfélag hafa undirritað kaupsamning um kaup Vara á 40% hlut í Securitas.  Kaupsamningurinn er með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Eftir að viðskiptin eru frágengin verður Vari 100% eigandi Securitas.  Vari verður í 95% eigu Stekks fjárfestingarfélags, sem hefur verið hluthafi í Securitas til 14 ára.  Stekkur er í 100% eigu Kristins Aðalsteinssonar.

Guðlaug Kristbjörg Kristinsdóttir er stjórnarformaður Vara eignarhaldsfélags og forstjóri Stekks fjárfestingarfélags: 

„Ég vil þakka Margit Robertet og Kviku eignastýringu, rekstraraðila Eddu, innilega fyrir samstarfið undanfarin 10 ár.  Framtakssjóðurinn hefur verið góður samstarfsaðili í þessu verkefni.  Viðskiptin nú marka stór tímamót hjá Stekk og erum við ótrúlega spennt að halda áfram að uppbyggingu Securitas og efla þjónustu til okkar viðskiptavina.  Ég hef setið í stjórn félagins í 14 ár og er virkilega spennt fyrir komandi tímum.

Stekkur er fjölskyldueignarhaldsfélag sem hyggst fjárfesta áfram í íslensku viðskiptalífi.  Fá fyrirtæki eru jafn góður fjárfestingarkostur og Securitas og sjáum við því fram á að halda áfram sem hluthafar til lengri tíma. Þegar langtímahugsjónir ráða för í fyrirtæki er aðaláhersla á að reka félagið vel og að hlúa að mikilvægum viðskiptasamböndum og fjárfesta til framtíðar.“

Margit Robertet er framkvæmdastjóri Eddu og hefur verið fulltrúi sjóðsins í stjórn Securitas frá árinu 2016.

„Eftir langt og farsælt samstarf með Stekk um fjárfestinguna í Securitas hefur Edda samþykkt tilboð Stekks um kaup á 40% hlut sjóðsins í félaginu. Það er með nokkrum trega sem við hverfum á braut enda Securitas gríðarlega flott félag með ýmis áhugaverð tækifæri til frekari vaxtar en yfir fjárfestingartímabilið hefur félagið tvöfaldað tekjur sínar og þrefaldað rekstrarhagnað fyrir afskriftir og skatta. Fyrir hönd Eddu þá vil ég þakka Guðlaugu Kristinsdóttur og Stekk fyrir gott samstarf og óska þeim alls hins besta á þessum tímamótum. 

Edda slhf. er 5 milljarða framtakssjóður í rekstri Kviku eignastýringar sem stofnaður var 2013.“